7.4.2008 | 10:48
Áfram Snæfell
Jæja þá er komið að því að mitt uppáhaldsfélag í körfubolta fer til Grindavíkur að keppa í fyrsta undanúrslitaleik í körfubolta. Ég hef frá því ég man eftir mér verið mikill snæfellingur enda alin upp í hólminum. Ég var líka svo heppin að þegar ég var lítil var pabbi að þjálfa Snæfell og fékk ég stundum að fara með honum og horfa á hann þjálfa strákana og fékk einnig að taka þátt í æfingunu, þó þær væru nú ekki eins og átti að gera þær þá fékk ég alltaf mikið hrós fyrir þær enda bara þriggja/fjögura ára. Það eru bara tvö lið í heiminum sem ég held uppá það eru annars vegar Snæfell þá í öllum greinum og Tottenham ( pabba að þakka). En nóg um það, það er leikurinn í kvöld sem skiptir meira máli. Hér í hólminum snýst allt um körfubolta þessa dagana. Alls staðar sem maður kemur þá er verið að tala um körfubolta, hvort sem það er við mjólkurkælirinn í Bónus eða við afgreiðsluborðið í Bakaríinu. Mjög skemmtilegt því allir styðja sitt lið og vona það besta. Það eru margir sem ætla héðan úr hólminum til Grindavíkur til að styðja Snæfell, ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með í sjónvarpinu hjá Ingu systir, því leikurinn er sýndur beint. Þessi úrstlitarimma hefur verið mjög spennandi og ég er eiginlega alveg gáttuð á hve ÍR er að gera góða hluti, þetta er allt annað lið en hefur spilað í vetur. Flott hjá þeim. Hver hefði trúað því að þeir myndu slá KR út? Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt varðandi þessa úrslitakeppni er hversu illa þjálfarar/leikmenn og félög eru upplýst. Eitt af því KKÍ verður að gera sér grein fyrir að þegar félög koma úr jafn litlu samfélagi og Snæfell er þá skorðast allt tímaplan sem hefur verið skipulagt. Fundum og öðrum dagskrám hefur verið frestað. Þetta er allt öðruvísi samfélag en t.d. í Reykjavík því hér er meiri samhugur og mörg hjörtu sem slá í sama takti, snæfellstakti. Snæfell, Snæfell, Snæfell..... Ég veit að strákarnir okkar gera sitt allra besta fyrir sterku liði Grindavíkur. Ég hef trú á þeim, koma svo..... áfram Snæfell.
Flokkur: Spaugilegt | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.